Móse gerðist fjárhirðir hjá tengdaföður sínum, Jetró, presti í Midían. Einu sinni rak hann féð langt inn í eyðimörkina og kom að Hóreb, fjalli Guðs. Þá birtist honum engill Guðs í eldsloga sem stóð upp af þyrnirunna. Hann sá að runninn stóð í ljósum logum en brann ekki. Móse hugsaði: „Ég verð að ganga nær og virða fyrir mér þessa mikilfenglegu sýn. Hvers vegna brennur runninn ekki?“Þegar Drottinn sá að hann gekk nær til að virða þetta fyrir sér kallaði Guð til hans úr miðjum runnanum og sagði: „Móse, Móse.“ Hann svaraði: „Hér er ég.“ Drottinn sagði: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ Og hann bætti við: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ Þá huldi Móse andlit sitt því að hann óttaðist að líta Guð.Þá sagði Drottinn: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt kvein hennar undan þeim sem þrælka hana. Já, ég þekki þjáningu hennar. Ég er kominn niður til að bjarga henni úr greipum Egypta og leiða hana úr þessu landi og upp til lands sem er gott og víðlent, til lands sem flýtur í mjólk og hunangi, til landsvæðis Kanverja, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. En nú er kvein Ísraelsmanna komið til mín og ég hef einnig séð hvernig Egyptar kúga þá. Farðu nú af stað. Ég sendi þig til faraós. Leiddu þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi.“ Móse svaraði Guði: „Hver er ég, að ég fari til faraós og leiði Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?“ Guð sagði: „Ég mun vera með þér. Þetta skal vera þér tákn þess að ég hef sent þig: Þegar þú hefur leitt þjóðina út úr Egyptalandi munuð þið þjóna Guði á þessu fjalli.“ Móse sagði við Guð: „Ef ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: Guð feðra ykkar hefur sent mig til ykkar, og þeir spyrja mig: Hvert er nafn hans? hverju á ég þá að svara þeim?“ Guð svaraði Móse: „Ég er sá sem ég er.“
...byrja á því að fara úr skónum...
Kannist þið ekki við þessa tilfinningu? Hvað það er þægilegt eftir langan dag að koma heim og byrja a því að fara úr skónum? Skilja þá eftir í forstofunni og geta veifað tánum svolítið? Það er ótrúleg frelsistilfinning. Og á Íslandi er það einfaldlega siður að við förum úr skónum í forstofunni þegar við komum heim til fólks. Þetta er reyndar kannski aðeins að breytast, en þá tökum við það eiginlega alltaf fram, við segjum við fólk... nei, nei, þú þarft ekkert að fara úr skónum! Reyndar förum við ekki alltaf úr, t.d. ef við erum að koma í veislu, og mér myndi t.d. finnast mjög óþægilegt þegar ég er að fara í heimahús að skíra, ef ég væri beðin um að fara úr skónum... Þá myndi mér finnast ég mjög varnarlaus. Og vitið þið hvar annars staðar mér líður mjög afkáranlega? Það er þegar ég þarf að fara úr skónum í öryggisleitinni í Leifsstöð. Það finnst mér mjög furðulegar og mótsagnakenndar aðstæður. Ég er að fara í ferðalag, og þarf að byrja ferðalagið á að fara úr skónum!
Móses var merkilegur maður. Þið kannist kannski við sögurnar um hann, hann fæddist í Egyptalandi, var sonur hebreskra foreldra á tímum þar sem Hebrear voru þrælar Egypta, og Faraó var að reyna að útrýma þeim, t.d. með því að láta myrða öll sveinbörn Hebreanna. Móse bjargaðist því mamma hans kom honum fyrir í körfu sem hún lét fljóta út á ána Níl, þar fann egypsk prinsessa hann og bjargaði honum. Hann fékk síðan að alast upp hjá fjölskyldu sinni fyrstu árin því systir hans, sem fylgdist með körfunni, stakk upp á því við prinsessuna að húnmyndi koma honum í fóstur til þeirra. En þegar hann varð eldri, varð hann hirðmaður Faraós. Þar varð hann vitni að grimmd Egyptanna gagnvart hebresku þrælunum og endaði á því að drepa einn af þrælapískurunum sem var að ganga í skrokk á þræli. Hann varð að flýja Egyptaland og fór í útlegð til Mídíanslands, þar sem hann eignaðist konu og fór að vinna fyrir tengdaföður sinn. Og þar erum við stödd í sögu Móse í texta dagsins. Hann er orðinn smali, sem er nú frekar mikil afturför fyrir mann sem var hirðmaður Faraós í því landi sem var lang siðmenntaðast af öllum á þessum tíma.
Það má kannski segja að Móses hafi aldrei passað neins staðar inn. Hann var fæddur Hebrei, alinn upp sem egypskt fósturbarn Hebrea, síðan sem hebreskur fóstursonur egypskrar prinsessu, og þegar hér er komið við sögu er hann útlagi. Og morðingi...
En Guð kemur til hans í brennandi runna... Og það fyrsta sem hann segir er: Farðu úr skónum! Skrítið, finnst ykkur ekki? Farðu úr skónum, því að jörðin sem þú stendur á er heilög. Þetta er reyndar mjög algengur siður í mörgum trúarbrögðum, að fólk fer úr skóm á helgistöðum, þú þarft að gera þetta, bæði ef þú ferð inn í mosku, eða inn í búddahof og víða, og er að sjálfsögðu tákn um virðingu og lotningu. En þegar við tengjum þetta við það hvar annars staðar við förum úr skónum, þá finnst mér þessi athöfn fá aðeins aðra merkingu. Nefnilega að þú ert að koma heim... Þú ferð úr skónum þar sem þér líður eins og heima hjá þér, þar sem þú getur veirð eins og heima hjá þér. Þar sem þú tilheyrir, þar sem þú passar inn. Þannig að þegar Guð vitjaði Móse, sem hafði einhvern veginn aldrei passað neins staðar inn, þá var hann í raun að segja, hér áttu heima. Hér í návist minni. Og ég held að hann sé líka að segja: Í návist minni, geturðu verið þú sjálfur. Þú mátt vera varnarlaus, en þú þarft að hlusta á mig. Vera opinn fyrir því sem ég hef að segja við þig. Því ég þarf á þér að halda.
Og verkefnið var ekki neitt smáræði. Að hjálpa öllum Hebreum að flýja úr þrældóminum í Egyptalandi. Algjörlega yfirþyrmandi.
Við vitum ekki af hverju Guð valdi Móse til að stjórna stærsta flótta sögunnar. Móses var sjálfur mjög meðvitaður um takmarkanir sínar, hann vissi það t.d. að hann var ekki mjög vel máli farinn, en Guð leit ekki á það sem neina hindrun, hann benti Móse á að hann ætti bróður, Aron, sem gæti komið vel fyrir sig orði. Og systur, Miriam, sem væri ótrúlega klók og sterk kona. Hann þyrfti ekki að gera þetta einn. En það voru einhverjir eiginleikar sem Móses hafði, sem Guð vildi nota.
Kannski líður okkur öllum stundum eins og Móse. Eins og við pössum ekki inn. Vitum ekki alveg hvar við eigum heima. Eða hvernig við getum verið við sjálf. Og kannski segir stundum einhver við okkur: Ég vildi að þú værir meira eins og – einhver annar. En ég held að Guð vilji einmitt að við verðum meira eins og við sjálf. Ég held að Guð vilji ekki að við líkjumst neinum öðrum, heldur líkjumst okkur sjálfum alltaf meira og meira. Og kannski hefur Guð eitthvað verkerfni handa okkur sem enginn annar getur unnið. Kannski þarf Guð ekki sérfræðing. Eða hetju. Eða leiðtoga. Eða einhvern með prófgráðu. Kannski þarf Guð akkúrat þig til að þjóna einhverju hlutverki. Leggja upp í ferð, jafnvel út í óvissuna. Og kannski er þá gott að gera eins og í Leifsstöð, áður en lagt er upp í ferðalag, að byrja á því að fara úr skónum.
Comments