top of page

Þegar leiðtogar veifa Biblíunni

Writer: arnayrrarnayrr



Mig langar að tala um þrjá menn í dag:


Sá fyrsti er Jesaja spámaður. Hann var uppi á umbrotatímum í lífi þjóðar. Erlent heimsveldi ógnaði friði og frelsi þjóðarinnar, spilling einkenndi veraldlegar stofnanir samfélagsins og trúarleiðtogar voru gagnrýndir fyrir hræsni og spillingu. Jesaja upplifir trúarreynslu sem gerir það að verkum að hann býðst til að gerast talsmaður Guðs gagnvart þjóðinni. Hann skynjar sína eigin synd og veikleika, en Guð, sem er heilagur og yfirþyrmandi tekur frá honum sekt hans. En verkefnið sem Jesaja fær er ekki auðvelt. Honum er ekki lofað heiðri og frægð, það er enginn sem segir við hann:, Þú munt hljóta þann heiðurssess að eiga rit í Biblíunni, sem margir milljarðar manneskja munu lesa næstu árþúsundin! Nei, verkefnið sem hann fær er að segja fólki að hlusta en skilja ekki, horfa en skynja ekki. Framhaldið af orðum Jesaja, ,,Hér er ég, send mig!" er ekkert sérstaklega uppörvandi. Því að Guð segir við hann:

„Far þú og seg þessu fólki: Hlustið og hlustið en skiljið ekki. Horfið og horfið en skynjið ekki. Sljóvga hjarta þessa fólks,  deyf eyru þess [ og loka augum þess svo að það sjái ekki með augunum, heyri ekki með eyrunum og skilji ekki með hjartanu, svo að það snúi ekki við og læknist.“ Þá spurði ég: „Hversu lengi, Drottinn?“  Hann svaraði: „Þar til borgirnar verða eyddar  og enginn býr í þeim og þar til húsin verða mannlaus og akurlendið eyðimörk.

En Jesaja fór og var spámaður fyrir Drottinn að því er talið er áratugum saman.

Næsti maðurinn var Nikódemus. Valdamikill maður. Hann var farísei og átti sæti í öldungaráðinu. Hann var uppi á umbrotatímum í lífi þjóðar. Enn og aftur ógnaði erlent heimsveldi friði og frelsi þjóðarinnar, spilling einkenndi stofnanir samfélagsins og trúarleiðtogar voru gagnrýndir fyrir hræsni og spillingu. En Nikódemus leitar Jesú uppi. Hann gerir það reyndar ekki opinberlega, hann kemur í skjóli nætur til að eiga samræður við Jesú. En hann kemur með sínar eigin fyrirframgefnu skoðanir, ,,við vitum að þú ert lærifaðir kominn frá Guði", segir hann. En Jesús er fljótur að svara honum, hann segir í raun, það sem þú veist skiptir ekki máli. Þú þarft eitthvað meira en það. Þú getur ekki falið þig á bak við stöðu þína, stétt, og þekkingu, þú þarft að fæðast að nýju. Umbreytast. Og hann bendir Nikódemusi á að farísearnir, valdastéttin, hafi ekki tekið á móti vitnisburði hans, þau trúa ekki. Þetta minnir óneitanlega á orð Jesú í 8. kafla Lúkasarguðspjalls, sem kallast á við orð Drottins í köllunarfrásögn Jesaja, þegar lærisveinarnir spyrja Jesú út í merkingu dæmisögunnar um sáðmanninn og sæðið: Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki. 


Þriðji maðurinn er Donald Trump. Eins og Jesaja og Nikódemus, leitar hann í helgidóminn, leitar hann Guðs, en hann er ekki að leita að svörum. Og hann læðist ekki um nótt. Hann gengur frá Hvíta húsinu að St.John´s kirkju þar sem margir forsetar Bandaríkjanna hafa komið. Myndavélarnar fylgja honum og lögreglan rekur burtu almenning á svæðinu sem er að mótmæla. En hann fer ekki inn. Hann hefur ekkert þangað að sækja, hann er ekki að leita að svörum, hann hefur þau öll. Og hann þarf ekki að lesa Biblíuna, hann þarf ekki einu sinni að opna hana, það er nóg að halda á henni.

Trump lifir einnig á umbrotatímum í lífi þjóðar. Og ekki bara þjóðar, heldur alls heimsins. Nú er það ekki erlenda heimsveldið sem ógnar friði og frelsi, heldur riðar heimsveldið til falls innan frá. Spilling einkennir stofnanir samfélagsins og trúarleiðtogar verða uppvísir að hræsni og spillingu. Sjáandi sjá þeir ekki, heyrandi skilja þeir ekki.

Er þetta það sem við erum að horfa upp á? Enn eitt heimsveldið riðar til falls? Alveg eins og babýlóníska heimsveldið. Eins og assýríska heimsveldið? Eins og rómverska heimsveldið. Öll urðu þau sjálfum sér sundurþykk, öll grotnuðu þau innan frá. Vegna þess að leiðtogarnir hættu að hlusta. Hættu að sjá og hættu að heyra. Vegna þess að bilið milli fátækra og ríkra varð yfirgengilegt, valdastéttin og ágeng og hörð.


Þegar leiðtogar heimsins veifa Biblíunni án þess að geta vitnað í eitt einasta vers í henni, þá er illt í efni.

Fjórða manneskjan sem mig langar að tala um í dag er ég sjálf. Og þú - sjálf eða sjálfur. Við komum hér saman í kirkjunni í dag, við leitum Guðs, leitumst eftir því að öðlast trúarlega reynslu. Kannski erum við eins og Nikódemus, komum með fyrirframgefnar niðurstöður, komum með fordóma okkar og leitum staðfestingar á þeim. Og vonandi erum við lík Jesaja og gerum okkur grein fyrir að við erum fólk með óhreinar varir sem búum meðal fólks með óhreinar varir. Vonandi komum við fram fyrir Guð með veikleika okkar og breyskleika og biðjum um hreinsun og hjálp. Það getur reyndar örugglega verið sársaukafullt. Munnur Jesaja var hreinsaður með glóandi kolum og jafnvel engillinn gat ekki snert þau og þurfti að nota tangir.


 

En vindurinn blæs þangað sem hann vill. Við stjórnum ekki anda Guðs. Það eina sem við getum gert er að segja: Hér er ég, send mig. Því að Guð sendir okkur út með erindi. Og erindið er hið sama og hefur alltaf verið. Að boða lausn hinum fátæku, kúguðu og undirokuðu. Að taka okkur stöðu með þeim sem minna mega sín. Að standa gegn kúgun, hatri og ofbeldi.

Þetta er verkefni okkar. Þetta er það sem heilagur andi knýr okkur til að gera. Og okkar er að svara: Hér er ég, send mig.


Textar dagsins:

Lexía: Jes 6.1-8

Á dánarári Ússía konungs sá ég Drottin sitja í háu og gnæfandi hásæti og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn. Serafar stóðu fyrir ofan hann. Hafði hver þeirra sex vængi: með tveimur huldu þeir ásjónu sína, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir. Þeir kölluðu hver til annars og sögðu:

„Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar,

öll jörðin er full af hans dýrð.“

Við raust þeirra nötruðu undirstöður þröskuldanna og húsið fylltist af reyk.

Þá sagði ég:

„Vei mér, það er úti um mig

því að ég er maður með óhreinar varir

og bý meðal fólks með óhreinar varir

en samt hafa augu mín séð konunginn, Drottin allsherjar.“

Þá flaug einn serafanna til mín. Hann hélt á glóandi koli sem hann hafði tekið af altarinu með töng. Hann snerti munn minn með kolinu og sagði:

„Þetta hefur snortið varir þínar,

sekt þín er frá þér tekin

og friðþægt er fyrir synd þína.“

Þá heyrði ég rödd Drottins sem spurði:

„Hvern skal ég senda?

Hver vill reka erindi vort?“

Ég svaraði: „Hér er ég. Send þú mig.“


Pistill: Róm 11.33-36

Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!

Hver hefur þekkt huga Drottins?

Eða hver hefur verið ráðgjafi hans?

Hver hefur að fyrra bragði gefið honum

og átt að fá það endurgoldið?

Frá honum, fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.


Guðspjall: Jóh 3.1-8, (9-15)

Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, og átti sæti í öldungaráði Gyðinga. Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: „Rabbí, við vitum að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gert þessi tákn sem þú gerir nema Guð sé með honum.“

Jesús svaraði honum: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki nema hann fæðist að nýju.


Nikódemus segir við hann: „Hvernig getur maður fæðst þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“

Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki nema hann fæðist af vatni og anda. Það sem af manni fæðist er manns barn en það sem fæðist af anda Guðs er Guðs barn. Undrast eigi að ég segi við þig: Ykkur ber að fæðast að nýju. Vindurinn blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann sem af andanum er fæddur.“

(Þá spurði Nikódemus: „Hvernig má þetta verða?“

Jesús svaraði honum: „Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist þetta ekki? Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það sem vér þekkjum og vitnum um það sem vér höfum séð en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum. Ef þér trúið eigi þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa er ég ræði við yður um hin himnesku? Enginn hefur stigið upp til himins nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn.

Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn svo að hann veiti hverjum sem trúir á hann eilíft líf.)

تعليقات


bottom of page