Það er vika frá upprisu Jesú. Vika síðan María Magdalena mætti Jesú í grasgarðinum. Vika síðan konurnar þrjár hlupu frá gröfinni til að segja lærisveinunum fréttirnar. Vika síðan lærisveinarnir tveir gengu til Emmaus og mætti manni á veginum, og þekktu hanns em Jesú þegar hann braut með þeim brauðið. Og það er vika síðan þau voru öll samankomin bak við læstar dyr, hrædd. Vika síðan Jesús birtist þeim öllum saman og þau sannfærðust um að hann væri í raun og veru upprisin. Nema einn. Tómas var ekki með þeim.
Og aftur eru þau saman komin, viku síðar. Bak við luktar dyr. Bíddu nú við! Eru þau ennþá hrædd? Er ekki Jesús búin að birtast þeim? Ættu þau ekki að vera á fullu að segja öðrum frá þessum dásamlegu tíðindum, Kristur er upprisinn? Við hvað eru þau eiginlega hrædd?
Tómas er með þeim núna. En hann hefur ekki viljað heyra það sem þau hafa að segja. Honum duga ekki frásagnir sjónarvotta, honum dugar ekki að heyra það sem aðrir hafa upplifað. Hann þarf að upplifa sjálfur. Sjá, heyra, snerta, finna. Annars getur hann ekki sannfærst.
***
Hjá okkur er líka komin vika. Vika frá því að kallið hljómaði, Kristur er upprisinn! Vika síðan við fögnuðum því að vonin er ekki öll úti, að lífið sigrar dauðann. Ég held að mörg okkar höfum bundið ákveðnar vonir við það að eftir páska myndi lífið aftur ganga sinn vanagang. Að samkomubannið myndi renna út, að veiran yrði sigruð, og þetta yrði allt bara eins og vondur draumur. En það er að renna upp fyrir okkur að kannski verður lífið aldrei samt. Og við erum ennþá lokuð inni, ennþá er samkomubann, og nú reynir á þrautseigjuna, seigluna, og úthaldið.
Og kannski erum við eins og lærisveinarnir. Kannski erum við hrædd. Því það er hægt að vera hrædd, þó að við vitum að lífið sigri dauðann, og það sé alltaf von. Við erum örugglega líka ólík. Sum okkar eru kannski hrædd um heilsu okkar eða ástvina okkkar. Sum okkar eru kannski óttaslegin um framtíðina, eru kannski búin að missa lífsviðurværi sitt og vita ekkert hvað tekur við. Og sum okkar horfa kannnski með kvíða til þess að heimsmynd okkar mun sennilega breytast í kjölfarið á þessum hörmungum. Og við spyrjum sennilega, Hvar er Guð í öllu þessu?
Tómas vildi ekki taka orð lærisveinanna góð og gild. Hann vildi fá að reyna á eigin skinni að Jesús væri upprisinn. Við höfum yfirleitt litið á þetta sem ákveðna heimtufrekju, og Tómas hefur verið dæmdur sem efasemdarmaður. En kannski er frekar hægt að segja að Tómas hafi einfaldlega vitað hvað hann þyrfti til að sannfærast. Og takið eftir því að Jesús kemur! Hann kemur sérstaklega til að hitta Tómas, og hann gefur honum það sem hann þarfnast. Hann leyfir honum að snerta sár sín, sannreyna með sínum eigin hætti, að þetta er satt, að Jesús er upprisinn. Og þá fyrst getur Tómas sagt, Drottinn minn og Guð minn.
Kannski hefur þú þörf fyrir það að Jesús komi til þín. Leyfi þér að reyna á eigin skinni að hann er upprisinn. Kannski dugar þér ekki að heyra það úr munni annarra.
Og kannski þurfum við öll á því að halda að Jesús vitji okkar, þar sem við erum saman innilokuð. Og kannski er það einmitt líka málið, alveg eins og lærisveinarnir, erum við saman. Við tökumst á við aðstæðurnar saman. Styrkjum og styðjum hvert annað, og treystum því að við komumst í gegnum þessa tíma saman, með Guðs hjálp.
Og ef þér finnst þú þurfa, hikaðu þá ekki við að hrópa til Guðs. Segja við Jesú, :Ég vil að þú sýnir mér sárin þín. Ég þarf á því að hadla að þú komir sérstaklega til mín. Og vittu til, Jesús kemur til þín, og gefur þér það sem þú þarft á að halda til að geta sagt, Drottinn minn og Guð minn.
Kristur er upprisinn, dýrð sé Guði.

Comments