top of page

Erum við réttlát þjóð?

Writer: arnayrrarnayrr

Á 6. áratugnum ríkti mikill ótti við kommúnisma í Bandaríkjunum og hefur þessi ótti verið kallaður ,,The Red Scare”. Stjórnvöld lögðu mikla áherslu á að útrýma sósíalískum hugmyndum úr samfélaginu og gengu mjög langt í þeim efnum. Ofsóknir ríkisins gegn þeim sem grunuð voru um kommúnískar hugsjónir hafa síðan gengið undir nafninu McCarthyismi, eftir þingmanninu Joseph McCarthy sem fór fyrir þingnefnd sem yfirheyrði þau sem grunuð voru. Stjórnvöld hikuðu ekki við að nota ólöglegar aðferðir, símahleranir, innbrot, og yfirheyrslur þar sem fólki bauðst að nefna nöfn annarra til að sleppa sjálf við lögsókn. Helstu skotmörk þessara ofsókna (því þetta voru ekkert annað en ofsóknir og nornaveiðar og hefur t.d. verið líkt við nornaveiðarnar í Salem) voru opinberir starfsmenn, starfsfólk í fjölmiðlum og kvikmyndum. Þúsundir manneskja misstu vinnuna og voru settar á svartan lista sem þýddi það að þau gátu hvergi fengið vinnu, og hysterían var svo mikil að hinn minnsti grunur um kommúnískar skoðanir varð fólki að falli, jafnvel bara það að einhver nefndi nafn við yfirheyrslur.

Margar þekktar manneskjur voru á svarta listanum, Albert Einstein, Berthold Brecht, Arthur Miller, Leonard Bernstein, Lucille Ball, Lena Horne eru t.d. aðeins örfá af þeim frægu nöfnum sem þar er að finna.

Ég held að við þekkjum flest eitthvað til þessarar sögu. En það sem kannski færri vita, er, að ofsóknirnar náðu líka til samkynhneigðra. Á þessum tíma var samkynhneigð skilgreind sem geðsjúkdómur, en almennt var litið á samkynhneigðar manneskjur sem siðlausar og ógn við grunngildi samfélagsins, og því beindu stjórnvöld líka spjótum sínum að þeim. Þessi hluti ofsóknanna er oft nefndur ,,The Lavender Scare”.


Þetta gerðist í Bandaríkjunum. Landi sem byggir stjórnarskrá sína á frelsi einstaklinganna. Ekki bara athafnafrelsi, heldur trúfrelsi og skoðanafrelsi. Og ég held að allir séu sammála um að þetta tímabil sé skammarblettur á sögu landsins. En þetta sýnir okkur að það er alveg sama hversu opið, frjálst og lýðræðislegt samfélagið er, ef við látum óttann ráða för, þá getur það fljótlega snúist upp í andhverfu sína.

Það er ekki langt síðan samkynhneigðir á Íslandi bjuggu við hálfgerðar ofsóknir á Íslandi. Fólk sem kom út úr skápnum missti gjarnan húsnæðið, það missti vinnuna, vinir og fjölskylda sneru við þeim baki, og mjög margir fluttu úr landi, því það var einfaldlega ekki líft hér á þessu litla landi. Sem betur fer er þetta ekki lengur svona. Ég held að við höfum flest lært að láta ekki kynhneigð fólks skipta okkur máli í samskiptum við það, þó að vissulega sé misjafnt hversu þægilegur okkur finnst sýnileiki samkynhneigðra. Alla vega er Gay Pride gangan Gylfa Ægissyni mikill þyrnir í augum. Og ég er alveg viss um að innan um leynast manneskjur sem eru honum sammála. En þær láta sem flestar lítið fyrir sér fara, enda eiga slíkar skoðanir ekki mikinn hljómgrunn í dag.

Fyrir nokkrum árum varð reyndar uppi fótur á fit á Akureyri, vegna þess að barnakennari tjáði slíkar skoðanir á persónulegu bloggi sínu. Hann missti vinnuna. Það þótti ekki við hæfi að maður með slíkar skoðanir kenndi börnum. Það gæti jú verið að einhver þeirra væru samkynhneigð, og þau ættu ekki að þurfa að mæta svona skoðunum í skólanum. Hann fór reyndar í mál við Akureyrarbæ og vann það mál vegna þess að íslensk lög vernda opinbera starfsmenn fyrir atvinnumissi vegna skoðana sinna. Fólk á Akureyri var mjög hneykslað. Honum voru dæmdar bætur, en fékk ekki vinnuna aftur, og hefur að því er ég best veit hvergi fengið vinnu við kennslu eftir það.

Fyrir nokkrum mánuðum missti annar kennari vinnuna fyrir að tjá karlrembuskoðanir í lokuðum Facebook hópi. Hann var háskólakennari en starfaði hjá einkarekinni stofnun, og dómstólar dæmdu stofnuninni í vil, hún mátti segja manninum upp. Því máli er þó væntanlega ekki lokið,

Nú verð ég að taka eitt mjög skýrt fram: Ég er algjörlega mótfallin skoðunum beggja þessara manna. Mér finnst þær í raun svívirðilegar og lýsa ótrúlegri fáfræði, fordómum, forréttindablindu og hroka. En sjáið þið ekki íroníuna? Fyrir 30 árum misstu samkynhneigðir barnakennarar vinnuna, vegna þess að fólk vildi ekki að ,,svona fólk” kæmi inn einhverjum skoðunum hjá börnunum þeirra. Í dag missa karlrembur og hommahatarar vinnuna vegna þess að fólk vill

ekki að manneskjur með ,,svona skoðanir” hafi áhrif á börnin þeirra.

En hvaða erindi á þetta í prédikun á fallegum sumarmorgni í Grafarvogskirkju? Þar sem við hlustuðum á dæmisöguna um mennina tvo sem byggðu húsin sín, annar á sandi en hinn á bjargi. Þar sem við heyrðum lesið úr Jesaja um réttláta þjóð, þjóð sem varðveitir stöðugt hugarfar. Og um það hvernig við eigum að greina á milli anda sannleika og lyga.

Mér finnst þessir textar einmitt svo skýrt vitni um það hversu mikið erindi Biblían á til okkar enn þann dag í dag. Og hversu miklu máli boðskapur Jesú Krists skiptir. Því að það er einmitt alltaf verkefni okkar að greina á milli sannleika og lyga. Ég tala nú ekki um í dag, þegar allt er morandi í falsfréttum og sannleikurinn virðist skipta minnstu máli í orðræðu þeirra sem fara með völd, eins og við sjáum víða í dag. Hvernig eigum við að geta greint á milli? Hverjum eigum við að fylgja? Hvernig eigum við að koma fram við fólk? Fólk sem er kannski með viðbjóðslegar skoðanir. Eða viðbjóðslegan lífsstíl.

Ég segi: Við þurfum að setja traust okkar á Jesú Krist. Og kærleika Guðs. Því að það er eini mælikvarðinn sem við getum treyst. Bjargið sem við getum byggt á.

En þá segið þið kannski: En Kristin trú, Guð og Jesús, hafa einmitt verið notuð til að kúga, til að útskúfa og fordæma. Já, það er alveg rétt. Vegna þess að fólk velur yfirleitt bara það sem því hentar úr Biblíunni eða boðskap Jesú til að undirbyggja þær skoðanir sem það hefur nú þegar. Við þurfum að skoða líf og dauða jesú til að vera einverju nær. Lífið sem Jesús lifði og dauðinn sem Jesús dó, eiga að vera mælikvarðar á allar skoðanir, allt sem við þurfum að miða við, þegar við erum ekki viss hvort einhver skoðun er rétt, hvort einhver athöfn er rétt, hvort við séum að breyta rétt eða ekki.

Líf Jesú var líf í kærleika. Kærleika sem snerist ekki um að segja fólki hvað það ætti að gera. Kærleika sem snerist ekki um ,,við og þau”, kærleika sem var laus við ótta við það sem við þekkjum ekki, kærleika sem sá hverja einustu manneskju sem elskað Guðs barn, hvort heldur sem hún tilheyrði yfirstéttinni, hinum bersyndugu, eða jafnvel rómverska hervaldinu sem var tákn kúgunar og ofbeldis. Jafnvel manneskjum sem framfylgdu því valdi, sýndi Jesús virðingu og kærleika.

Dauði Jesú var ekki fallegur. Hann fékk ekki hægt andlát, umkringdur ástvinum. Hann var drepinn, sem glæpamaður. Aftaka hans var að fullu lögleg og í samræmi við venjur og það sem þótti eðlilegt á þessum tíma. Hvernig getur hann þá verið fyrirmynd í dauða sínum? Er það bara vegna upprisunnar? Ef Jesús hefði dáið, og ekki risið upp, þá myndum við sennilega ekki vita neitt um hann. Hann hefði bara verið einn af þúsundum manneskja sem Rómaveldi tók af lífi. Svona eins og ræningjarnir sem voru sitt hvoru megin við Jesú og voru örugglega sekir um alvarlega glæpi. En Jesús var ekki glæpamaður. Nei, ekki í okkar huga. En hann var það í huga valdsins. Hann ógnaði nefnilega stöðugleikanum. Hann ógnaði ógnarvaldinu, valdinu sem ríkir með ofbeldi, en ekki kærleika. Valdinu sem refsar og tyftar til óttablandinnar hlýðni. Og það var glæpur að ógna því valdi. En um leið er það hlutverk okkar allra. Að standa gegn ógnarvaldi. Að standa gegn því valdi sem kúgar og lýgur því að okkur að við þurfum að vera hrædd. Hrædd við manneskjur sem eru öðru vísi en við. Manneskjur af öðru kyni, með aðra kynhneigð, eða aðrar skoðanir en við.

Líf og dauði Jesú Krists er bjargið sem við eigum að byggja líf okkar á. Og ef við viljum vera ,,réttlát þjóð sem varðveitir stöðugt hugarfar” verðum við að vera meðvituð um að sömu grunngildi eiga við um allar manneskjur. Alveg sama hvort við erum sammála skoðunum þeirra eða ekki. Alveg sama hvort við samþykkjum lífsstíl þeirra eða ekki. Alveg sama hvort við fyrirlítum þær eða ekki.

Jesús gekk fram í kærleika. Líf hans og dauði endurspeglaði kærleika Guðs og upprisa hans gaf okkur von um að okkar líf og dauði geti einnig endurspeglað þennan kærleika. Það er bjargið sem við eigum að byggja á.

Dýrð sé Guði.





Comments


bottom of page