top of page

Hlýðni eða hávaði?

Writer: arnayrrarnayrr


Prédikun í Grafarvogskirkju 17. Mars 2019

Guðspjallstexti, Mark. 10 46 - 52

Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní,[ að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.


Það gengur mikið á í samfélaginu þessa dagana. Það eru verkföll, verkafólk hefur lagt niður störf, það mótmælir því að þurfa að bera þungar byrðar skatta, húsnæðiskostnaðar og lágra launa. Hælisleitendur mótmæla því að vera safnað saman í gettó, mótmæla mannréttindabrotum og mæta hörku lögreglunnar.

Unglingar mótmæla meðferð okkar á náttúrunni og umhverfinu, þau halda því fram að skólinn skipti ekki máli, ef þau eiga hvort eð er enga framtíð. Ein stúlka hóf upp raust sína, og þegar reynt var að þagga niður í henni, t.d. með því að reyna að ófrægja hana (hugsið ykkur að 16 ára gömul sænsk stúlka með Asperger heilkenni skuli ógna mógúlum heimsins svo mikið að þeir reyni að gera hana tortryggilega með því að halda því fram að hún sé hrópaði hún bara hærra... Nú er þessi hreyfing orðin að alheimshreyfingu, þar sem ungt fólk um allan heim safnast saman til að mótmæla, og hér á Íslandi hafa ungmenni mótmælt 4 föstudaga í röð á Austurvelli. Og það er búið að tilnefna Gretu Thunberg til Friðarverðlauna Nóbels! Hugsið ykkur!


Allt þetta fólk veit hvað það vill. Það vill losna undan þjáningum, og það hlýðir ekki fjöldanum, lætur ekki þagga niður í sér.


Bartímeus veit líka hvað hann vill. Hann tilheyrir þeim hópi í þjóðfélaginu sem er hvað varnarlausastur, hann hefur enga lífsbjörg nema að betla. Og fólk hefur engan skilning á þpörf hans fyrir hjálp, það eina sem þeim finnst skipta máli er að hlífa Jesú við því að hitta þennan mann. Vilja þau ekki að Jesús hitti þennan mann? Af hverju? Er það af því að hann er óæðri, til skammar, ekki nógu góður fyrir Jesú. Eða af því að þau trúa því ekki að Jesús geti gert neitt fyrir hann. Eða gera þau þetta af gömlum vana?

Jesús sér fólk ekki sömu augum og við. Hann heyrir hróp Bartímeusar þótt aðrir reyni að þagga niður í honum. Og hann sýnir honum þá virðingu að þykjast ekki vita hvers hann þarfnast... Og hann gefur honum það sem hann þarfnast. Hann viðurkennir þörf hans og reynir ekki að þrátta við hann að eitthvað annað sé honum nú örugglega fyrir bestu. Eða að ef hann fái nú sjóina á ný, þá muni það hafa einhver ófyrirsjáanleg áhrif, t.d. það að þá getur hann farið að vinna fyrir sér og tekið þá vinnuna frá einhverjum öðrum. Eða að hann hljóti að eiga þessa ógæfu skilda, og eigi bara að vera hlýðinn og láta lítið fyrir sér fara. Það sé hvort eða er svo mikið gert fyrir hann, hann fái að betla óáreittur og fólk gefi honum nú fullt af peningum, hann geti nú ekki ætlast til meira. Það er svo mikið af öðru fólki sem þurfi að hjálpa, fólki sem stendur Jesú mikið nær.

Það er svo athyglisvert að pistillinn og guðspjallið standa eins og ákveðin mótsögn. Hlýðni Jesú er dyggð, sem hann lærir í gegnum þjáninguna. Á ekki þá Bartímeus líka að iðka þá dyggð og þjást í hljóði? Það hefur svo sannarlega verið kennt í kristinni trúarhefð. En þarna sýnir Jesús okkur að þó að þjáningin og hlýðnin við Guð sé mikilvæg, og eitt af því sem gerði hjálpræðisverk Jesú örugglega mögulegt, þá ætlast Jesús ekki til að við þjáumst í hljóði. Hann mætir Bartímeusi og bindur enda á þjáningar hans.

Hefur verið reynt að þagga í þér þegar þú hefur hrópað á hjálp? Sumir lýsa þeirri reynslu að ganga á milli lækna og fá hvergi lausn, því að þeim er ekki trúað, eða þjáning þeirra ekki tekin alvarleg. Þetta er ekki síst reynsla kvenna, og mörg þeirra vandamál eru fyrst núna að fá athygli læknavísindanna, t.d. endometriosa. En þetta getur líka átt við um þau sem eru í viðkvæmastri stöðu í samfélaginu okkar. Fólkið í láglauna- og erifðisstörfunum. Sem í dag fær þau skilaboð að allt fari á hliðina ef þau gera kröfur. Fólk sem á hvergi höfði sínu að halla , sem fær þau skilaboð að það eigi nú bara að sætta sig við það sem því stendur hér til boða, það séu hvort eð er svo margir aðrir í samfélaginu sem þurfi að hugsa um fyrst... Og unga fólkið sem kvíðir framtíð á jörð sem við höfum farið með sem einnota.

Okkur hefur verið kennt að það sé ákveðin dyggð að þjást í hljóði. Að vera ekki með vesen. ÉG held að tþetta sé sérstaklega áberandi á Íslandi, við erum ótrúlega dugleg að láta ýmislegt yfir okkur að ganga. Ég held ryendar að það sé að breytast, öll þessi mótmæli eru ákveðið merki um það, og ég held að við eigum að kalla og hafa hátt, láta ekki þagga niður í okkur.

Bartímeus fékk ósk sína uppfyllta. Hverjar eru þínar óskir? Hvers þarfnast þú? Hikaðu ekki við að hrópa og kalla þótt einhverjir vilji þagga niður í þér. Jesús vill heyra hvers þú þarfnast og gefa þér það.

Dýrð sé Guði, sem heyri hróp þeirra sem þjást.

Comments


bottom of page