top of page

Ljós og myrkur

Writer: arnayrrarnayrr

 Prédikun flutt í Kirkjuselinu á Aðfangadag 2023




Eitt fallegasta ljóð heimsbókmenntanna er trúarjátningin sem er að finna í Davíðssálmi 139. Hann byrjar svona: ,,Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig. Hvort sem ég sit eða stend veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar. hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú".

Og stuttu seinna segir: ,,Hvert get ég farið frá anda þínum, og hvert flúið frá augliti þínu? Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar. Þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar. Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér. Og þótt ég segði: ,,Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt," þá myndi myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér".

 

Jólin eru sannkölluð hátíð ljóssins. Þau koma á myrkasta tíma ársins, þegar kuldinn nístir inn að beini og við tökum fagnandi tækifærinu á að færa ljós inn í myrkrið, kveikja á kertum, jólaseríum, hugsa um stjörnuna fallegu sem birtist vitringunum og englaherinn sem ljómaði af dýrð Drottins á Betlehemsvöllunum. Og táknmál jólanna er barátta ljóss og myrkurs: ,,ljósið skín í myrkrinu, en myrkrið tók ekki við því", segir í guðspjalli jóladagsins. Og í langflestum trúarbrögðum er barátta ljóss og myrkurs táknræn fyrir baráttu góðs og ills, þar sem ljósið er af hinu góða, en illskan felur sig í myrkrinu.  Við túlkum þetta táknmál með því að kveikja eins mikið af ljósum og við getum, við hengjum upp seríur, stjörnur í glugga og kveikjum á krönsum og kertum, allt til þess að reka myrkrið burt, tjá sigur ljóssins.

 

En svo kemur þessi fallegi texti í Davíðssálmunum, og sýnir okkur nýtt sjónarhorn. Myrkur og ljós eru jöfn fyrir Guði. Ekkert myrkur er Guði of myrkt, engin nótt er of dimm, þegar Guð er nálægur. Ég les þennan texta gjarnan í kistulagningum, því mér finnst svo mikil huggun í honum. Þegar fólk glímir við sorg, vanlíðan og kvíða, þá tölum við stundum um að það sé á myrkum eða dimmum stað, en þá er svo gott að geta sagt einmitt þetta, ekkert myrkur er of myrkt fyrir Guð, engar aðstæður eru svo erfiðar, svo sárar eða svo hræðilegar, að Guð geti ekki verið þar með okkur.

 

Ég held að við getum öll verið sammála um það að þessi aðventa hefur verið myrkari en endranær vegna ýmissa atburða í kringum okkur. Við hugsum til Grindvíkinga sem þurfa að halda jólin að heiman, eru orðnir flóttafólk í eigin landi og við gleðjumst yfir þeirri samhygð sem þjóðarsálin býr yfir þegar fólkið okkar gengur í gegnum hremmingar og við hjálpumst að og sýnum stuðning í verki. Það er mikilvægur eiginleiki sem allar heilbrigðar fjölskyldur búa yfir og þannig erum við, ein stór fjölskylda.

 

En svo er það landið helga. Fæðingarstaður Jesú Krists. Betlehemsvellirnir þar sem stjarnan ljómaði, englarnir birtust hirðunum og lofsöngurinn hljómaði, þangað sem vitringarnir ferðuðust langa leið til að veita nýfæddum konungi lotningu.

Það fæðast ennþá börn í Betlehem. En þar er ekki bjart yfir þessa dagana. Andri Snær Magnason skrifaði pistil í Heimildina þann 19. desember sl.


Þar segir:

Dimmt er yfir Betlehem, slokknað blik í auga

slokknuð augnastjarna 10.045 barna.

 

Það er eitthvað öfugsnúið við það að halda jól, hátíð barnanna, fagna fæðingu Jesúbarnsins, á meðan börn deyja daglega á fæðingarslóðum hans. Það er eitthvað öfugsnúið við að tala um frið, fagna friðarhöfðingjanum sjálfum, á meðan vonin um frið virðist vera svo víðs fjarri.


Víða ferðast vitringar

víða funda vitringar

fjöldamargar þjóðir, ráðalausar þjóðir, víða týna vitringar vegaljósi skæru.

...

Dimmt er yfir Betlehem

slokknar vonarstjarna, slokknar von um frið.

 

Í Betlehem er búið að aflýsa jólunum. Kristnar kirkjur í Betlehem hafa tilkynnt að þar verði ekkert jólahald. Í lúthersku kirkjunni i Betlehem er jatan með Jesúbarninu, sem sett er upp á hverri aðventu, hulin með grjótmulningi, þar sem Jesúbarnið liggur hálfgrafið.

 

Það er öfugsnúið að halda jól í ár. Við viljum svo gjarnan halda í glansmyndina fallegu af friðsælli fæðingu í fjárhúsi, en við þurfum að muna að fæðing Jesú var i miðdepli átaka um völd og yfirráð, alveg eins og þjóðarmorðið sem er í fullum gangi á Gaza. Fæðing Jesú ógnaði Heródesi konungi svo mikið að hann lét myrða öll sveinbörn undir tveggja ára aldri. Jesús eyddi sínum fyrstu árum sem flóttamaður í Egyptalandi, og fór þá sennilega svipaða leið og margar fjölskyldur fara sem flýja frá Gaza til Egyptalands í dag. Jesúbarnið sem fæddist í Betlehem, friðarhöfðinginn sem gyðingar væntu, er á þessu ári miklu fremur tákn fyrir varnarleysi barnanna í veröldinni.

 

Það var líka dimmt yfir Betlehem fyrir rúmum 2000 árum, þegar stjarnan var horfin af himninum og vitringarnir farnir til síns heima. Sagan endurtekur sig.

Sagan mín og sagan þín

saga allra barna, sama sagan aftur og aftur og aftur. Víða rata vitringar í villugötur, víða elta þjóðir villuljós þeirra, þjáða þjóðin verður þjóðin sem veldur þjáningu. Sagan mín og sagan þín, birtist núna á skjánum undurskæra, spegilmyndir af svarthvítum myndum, þú ert umkringdur, þú umkringir, þú ert ofsóttur, þú ofsækir, þú ert afmennskaður, þú afmennskar, spegill sem speglast í spegli sem speglast í spegli, Davíð verður Golíat sem verður Davíð og gettóið verður Gaza fram og aftur í aldir allra alda.

 

Davíð sálmaskáld (sem er sá sami Davíð og sigraði Golíat) þekkti veruleika stríðs og átaka. Og hann hvíldi í þeirri fullvissu að ekkert fengi skilið hann frá Guði. Ekkert myrkur væri of myrkt fyrir Guð að stíga inn í. Og það er fullvissan sem ég held að við þurfum að halda á lofti á þessum jólum. Ljósið sigrar vissulega myrkrið, en það getur tekið tíma. Og þó að það sé búið að aflýsa jólunum í Betlehem, þá eru samt jól. Líka í myrkrinu. Því að ekkert myrkur er Guði of myrkt. Enginn staður of dimmur eða hættulegur að Guð yfirgefi hann. Um það fjallar sagan af fæðingu Jesúbarnsins, Guð gerðist manneskja, gekk inn í myrkrið til að deila kjörum með okkur.

 

Þegar þú gengu héðan út í myrkrið, mundu þá að Guð gengur með þér. Við förum hvert til okkar heima að halda jólin með okkar hætti. Sum okkar halda jólin eins og þau hafa alltaf verið haldin, önnur þurfa að halda þau í nýjum, óþekktum aðstæðum. Sum kvíða kannski ófriði á heimilinu yfir jólin, sum glíma við veikindi eða missi, en munum það að ekkert myrkur er Guði of myrkt, enginn staður of dimmur fyrir nærveru Guðs. Það er vonin sem jólin gefa okkur.

Dimmt er yfir Betlehem

dauf er vonarstjarnan

en stjarnan mín og stjarnan þín er friður. Víða hafa vitringar ratað á þær slóðir. Hún er vonin undurskæra.

Stjarna allra barna.

 

Dýrð sé Guði, sem er bæði í myrkri og ljósi.


Ath! Skáletraði textinn (Að undanskilinni tilvitnun í Daviðssálm 139) er bein tilvitnun i pistil Andra Snæs Magnasonar. Hann er að finna hér: https://heimildin.is/grein/20059/dimmt-er-yfir-betlehem/


Comments


bottom of page