
Guð og mammón
Jesús segir:
Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón. Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?[ Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil! Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.
Matt 6:24 - 34
Ég horfði á áhugaverðan þátt um mannsheilann um daginn. Hann byrjaði reyndar á allt öðrum nótum, því að í byrjun þáttarins fylgdumst við með tveimur litlum stelpum, ca 7 ára ganga inn á nautaatsleikvang á Spáni.. Mamma þeirra kvaddi þær og óskaði þeim velgengni, og sagði: Þið vitið hvað þið eigið að gera… og ég var að velta fyrir mér, hvort það gæti í alvörunni verið að þær ættu að fara að taka þátt í nautaati. En svo kom í ljós að þetta var keppni sem er víst mjög vinsæl á Spáni, þar sem fjölmenn lið fólks keppa í því að búa til mannlega turna, allt að 10 ,,hæða” háa. Fyrst raða margar manneskjur sér saman í hnapp, og haldast í hendur eftir öllum kúnstarinnar reglum, svo klifra nokkrar upp á næstu hæð og svo koll af kolli, þangað til röðin er komin að litlu stelpunum tveimur,sem voru efst á ,,turninum” og þurftu að klifra upp eftir bakinu á öllum manneskjunum á undan.
Þetta var ótrúlega spennandi, það var greinilega mjög erfitt að vera hluti af þessum mannlega turni, fólkið í neðstu lögunum þurfti að vera mjög sterkt, og standa algjörlega saman, það mátti enginn gefa eftir, allir þurftu að leggja allt sitt í þetta. Og stundum hrundi allt, og öll hrúgan varð að einni kös, og ég velti fyrir mér hvort fólk hlyti ekki að meiða sig. Og áhorfendur horfðu jafn spenntir á þetta, eins og aðrir horfa á fótbolta eða kappakstur.
En hvað hefur þetta að gera með heilann? Jú, vinkillinn í þættinum var sá eða engin önnur skepna á jörðinni hefur heila, sem gerir henni kleift að tengjast öðrum á jafn náinn hátt og manneskjan. Við höfum þennan ótrúlega hæfileika að tengja okkur saman, alla okkar orku, visku, þekkingu og reynslu, og í gegnum þennan hæfileika hefur okkur tekist margt alveg ótrúlegt. Með því að vinna saman höfum við afrekað ótrúlega hluti, eins og t.d. að fara út í geim.

Comments