top of page

Mannlegir turnar

Writer: arnayrrarnayrr


Guð og mammón

Jesús segir:

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón. Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?[ Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil! Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

Matt 6:24 - 34


Ég horfði á áhugaverðan þátt um mannsheilann um daginn. Hann byrjaði reyndar á allt öðrum nótum, því að í byrjun þáttarins fylgdumst við með tveimur litlum stelpum, ca 7 ára ganga inn á nautaatsleikvang á Spáni.. Mamma þeirra kvaddi þær og óskaði þeim velgengni, og sagði: Þið vitið hvað þið eigið að gera… og ég var að velta fyrir mér, hvort það gæti í alvörunni verið að þær ættu að fara að taka þátt í nautaati. En svo kom í ljós að þetta var keppni sem er víst mjög vinsæl á Spáni, þar sem fjölmenn lið fólks keppa í því að búa til mannlega turna, allt að 10 ,,hæða” háa. Fyrst raða margar manneskjur sér saman í hnapp, og haldast í hendur eftir öllum kúnstarinnar reglum, svo klifra nokkrar upp á næstu hæð og svo koll af kolli, þangað til röðin er komin að litlu stelpunum tveimur,sem voru efst á ,,turninum” og þurftu að klifra upp eftir bakinu á öllum manneskjunum á undan.


Þetta var ótrúlega spennandi, það var greinilega mjög erfitt að vera hluti af þessum mannlega turni, fólkið í neðstu lögunum þurfti að vera mjög sterkt, og standa algjörlega saman, það mátti enginn gefa eftir, allir þurftu að leggja allt sitt í þetta. Og stundum hrundi allt, og öll hrúgan varð að einni kös, og ég velti fyrir mér hvort fólk hlyti ekki að meiða sig. Og áhorfendur horfðu jafn spenntir á þetta, eins og aðrir horfa á fótbolta eða kappakstur.


En hvað hefur þetta að gera með heilann? Jú, vinkillinn í þættinum var sá eða engin önnur skepna á jörðinni hefur heila, sem gerir henni kleift að tengjast öðrum á jafn náinn hátt og manneskjan. Við höfum þennan ótrúlega hæfileika að tengja okkur saman, alla okkar orku, visku, þekkingu og reynslu, og í gegnum þennan hæfileika hefur okkur tekist margt alveg ótrúlegt. Með því að vinna saman höfum við afrekað ótrúlega hluti, eins og t.d. að fara út í geim.




Svo sá ég mynd af Gretu Thunberg, sem við erum öll farin að þekkja, þar sem hún sat alein fyrir framan þinghúsið í Stokkhólmi með skólatöskuna sína og mótmælaspjald, snemma í fyrrahaust. Og mér finnst svo athyglisvert, að hún er síðan dæmi um það hvað ein einstök manneskja getur líka áorkað miklu. Þegar ég prédikaði first um hana í fyrrahaust í Kirkjuselinu, vissi ég eiginlega varla hver hún var fyrr en ég ákvað að kynna hana fyrir kirkjugestum. Nú veit öll heimsbyggðin hver hún er, enda hefur hún áorkað ótrúlega miklu, og er orðin táknmynd um það að við þurfum að huga að framtíðinni og því hvernig við skilum jörðinni til barnanna okkar.


Jesús segir í guðspjallinu að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur. Úff! Það á nú eiginlega ekki alveg við í dag, því ég held að við höfum öll áhyggjur. Áhyggjur af framtíðinni, hvort okkur tekst að snúa þróuninni í loftslagsmálum við, hvort við munum eiga einhverja framtíð yfirleitt. Því ég held að við getum verið sammála um að við höfum miklu frekar þjónað Mammon en Guði, og við erum að súpa seyðið af því núna. Það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum, og við höfum leyft ótta og græðgi að ráða för allt of lengi. Óttanum og græðginni sem birtist í því að okkur finnst við aldrei hafa nóg, og við þurfum sífellt að hafa meira, einmitt til þess að hafa ekki áhygggjur af morgundeginum. Einmitt vegna þess að við höfum verið að reyna að bæla niður þessar áhyggjur okkar, með því að safna endalaust of miklu, ganga á allar auðlindir, og reyna að moka undir okkur eins miklu og við getum, höfum við komið okkur í þá stöðu að þurfa að hafa raunverulegar áhyggjur, ekki bara af morgundeginum, eða því hvort við höfum nóg þá, heldur af allri framtíð mannkyns.


Hvernig getur Jesús þá sagt okkur að hafa ekki áhyggjur? En ég held samt einmitt að þar liggi lykillinn að lausninni. Jesús bendir okkur á að við eigum að taka náttúruna okkur til fyrirmyndar.,, Lítið til fugla himinsins", segir hann. Guð sér um þá. ,,Hyggið að liljum vallarins". Jafnvel Salómon konungur var ekki jafn skrautlegur og þær. Guð sér um þær. Og Guð sér um okkur. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að við erum hluti af náttúrunni. Við erum ekki yfir hana hafin, við höfum ekki leyfi til að umgangast hana eins og við höfum gert, heldur þurfum við að leita fyrst Guðs ríkis og réttlætis, þá munum við ekki þurfa að hafa áhyggjur af morgundeginum. Leitið Guðs ríkis. Það er ekki einhver fjarlægur handanveruleiki, heldur er Guðs ríki að finna alls staðar þar sem er jafnvægi. Alls staðar þar sem er friður. Öryggi. Sátt, óttaleysi. Þar er Guðs ríki að finna.


Við manneskjurnar erum svo ótrúleg þegar við tökum okkur saman. Við getum tengt okkur saman þannig að allir okkar vitsmunir, orka og kraftar geta gert ótrúlega hluti. Það á líka við núna. Um allan heim eru manneskjur að vinna að því hörðum höndum að finna upp alls konar lausnir til að snúa þróuninni við. Og ég er sannfærð um að okkur tekst það. En það þarf ekki bara snillinga, og vísinda og tæknifólk til að gera þetta. Alveg eins og með mannlegu turnana á Spáni, þá þarf ótrúlega margt fólk á gólfinu, fólk sem byggir grunn, er sterkt og styður við þau sem klifra upp. Og við eigum líka spámenn og konur, eins og Grethu Tunberg, sem ég trúi því einfaldlega að séu send frá Guði með skilaboð til okkar mannfólksins. Skilaboð um að snúa af rangri leið, iðrast og leita Guðs. Alveg eins og spámenn Gamla testamentisins gerðu. Og það eru líka skilaboð Jesú til okkar. ,,Leitið fyrst Guðs ríkis og réttlætis, þá mun allt annað veitast yður að auki".


Við þurfum að snúa okkur til Guðs. Snúa okkur í alvöru til skapara okkar, og hætta að leyfa áhyggjum, ótta og græðgi að stjórna því hvernig við lifum á jörðinni. Við þurfum að lifa í því trausti að Guð sér okkur fyrir því sem við þurfum, sköpunin sem við erum hluti af er svo stórkostleg að við þurfum ekki að hlaða undir okkur. Leggjum líf okkar í hendur Guðs, leitum ríkis hans, og hjálpumst svo að við að gera það sem þarf til að bjarga jörðinni.


Dýrð sé Guði, skapara himins og jarðar. Amen.

Comments


bottom of page