Hvaða sögur eru sagðar á þínu heimili um jólin? Hvaða sögur eru það sem fá að lifa ár frá ári og verða hluti af jólahaldinu? Eru það kannski sögur af því hvernig jólin voru þegar þú varst barn? Af skemmtilegum jólagjöfum, eða þegar þú fékkst kartöflu í skóinn? Einhverjum jólahefðum? T.d skemmtilega jólaboðinu sem Sigga frænka hélt alltaf? Eða þegar þú keyrðir út kort eða pakka með afa? Eða segirðu kannski frá því þegar kviknaði i jólaskreytingunni á borðinu?
Segir þú börnunum þínum sögurnar af Grýlu og jólasveinunum? Þessum fulltrúum illskunnar og vonskunnar í tilverunni, Grýlu sem borðar óþekku börnin, jólakettinum sem borðar fátæku börnin, og jólasveinunum sem hrekkja alla, bæði háa sem lága. Segir þú þeim söguna af Jesúbarninu? Sem er einmitt á hinum endanum, fulltrúi kærleikans og vonarinnar?
Þegar við manneskjurnar viljum skilja tilveruna, þá segjum við sögur. Við gerum vissulega mikið meira en það, við mælum og rannsökum, smíðum vísindakenningar og komumst að ,,sannleikanum" um hlutina, sem við setjum fram í vísindatímaritum, og nýtum svo okkur til hagsbóta, t.d. í ýmiss konar tækni og uppfinningum sem gera okkur lífið auðveldara. En um leið getur öll tæknin og uppfinningarnar gert lífið svo mikið flóknara. Við sjáum það í dag hvernig allt það sem við höfum fundið upp getur líka valdið okkur skaða, t.d. á náttúrunni og umhverfinu. Og eftir því sem heimurinn minnkar með betri tengingum, t.d. internetinu, þá líður okkur oft eins og við fjarlægjumst hvert annað...
Og þess vegna segjum við sögur. Til að tengjast. Til að skilja heiminn. Til að skilja tilveru okkar. Um allan heim eru sagðar sögur af sköpun heimsins. Af því hvernig hið vonda og illa varð til. Og hvernig hið góða sigrar hið illa að lokum. Því að við þurfum sögur til að skilja. Til að tengjast. Til að finna tilganginn í lífinu.
Sumar þessar sögur eru algjör uppspuni. Smíðaðar til að útskýra fyrir fólki ýmsa hluti, t.d. hvernig heimurinn varð til, eða hvernig hið illa kom í heiminn. En það þýðir samt ekki að þessar sögur séu ekki sannar. Þær eru sannar því þær fanga einhvern kjarna í tilverunni sem er mikilvægt að eiga og ná utanum. En svo eru líka til sögur sem eru byggðar á sönnum atburðum. Atburðum sem gerðust, en eftir því sem tíminn líður verða þær marglaga. Þær hlaða utan á sig tengingum við aðra atburði, þær eru sagðar frá mörgum sjónarhornum og fá dýpri merkingu og tilgang, því það er eitthvað í þeim sem fólk tengir við, einhver kjarni sem snertir hjörtu allra sem heyra söguna.
Við eigum svona sögur í nútímanum. Sögur af raunverulegum atburðum sem fá á sig goðsagnakenndan blæ. T.d. sagan af því þegar Abraham Lincoln var myrtur. Hvernig hann dreymdi fyrir um dauða sinn, og hvernig eitt dagblað birti frétt af morði hans áður en það hafði átt sér stað. Og það hefur verið bent á að ýmislegt sé svipað í atburðarás bæði þegar Lincoln var myrtur og síðan John F. Kennedy. Báðir þessir forsetar voru vinsælir og höfðu barist fyrir miklum samfélagsbreytingum, og voru þannig kannski má segja fulltrúar vonar í samfélaginu. Kannski er ekkert allt satt og rétt sem hefur hlaðist utan á þessar sögur í gegnum tíðina. Og það er auðvitað auðvelt að sannreyna ýmislegt og jafnvel hrekja. En þrátt fyrir það lifir þessi mýta um forsetana tvo góðu lífi. Því að hún gefur fólki merkingu inn í atburðina og hjálpar þeima ð setja þá í stærra samhengi. Og kannski verður þessi saga gleymd eftir nokkra áratugi. Eða nokkur hundruð ár...
En sú saga sem er dýrmætust allra, sú saga sem virðist lifa af allar samfélagsbreytingar, sú saga sem virðist alltaf halda kjarna sínum og tilgangi... það er sagan af fæðingu Jesúbarnsins. Sagan af Jósef og Maríu sem eiga hvergi höfði sínu að halla. Sagan af hirðunum og englunum. Sagan af stjörnunni. Sagan af vitringunum. En líka sagan af Heródesi og illsku hans. Ofsóknum og morðum. Fólki á flótta. Þessi saga á svo mörg lög. Svo mörg sjónarhorn. Á aðventunni sögðum við þessa sögu t.d. frá sjónarhóli gistihússeigandans sem var svo pirraður því það var alltaf verið að trufla hann, hann fékk engan svefnfrið. Og þessi saga hefur verið sögð frá sjónarhóli flest allra sögupersónanna (nema kannski englanna, ég man ekki eftir slíkri sögu) Allar þessar persónur hafa fengið rödd... Hirðarnir, vitringarnir, Jósep, María, asninn og kýrin, kindurnar... Og allar helgisagnirnar sem hafa orðið til í kjölfarið. Sagan af Jósep, Maríu og Jesúbarninu á flótta. Hvernig hermenn elta þau og þau leita skjóls í helli. Og hvernig Guð sendir könguló til að spinna vef fyrir hellismunnann til að villa um fyrir hermönnunum. Ótal svona helgisagnir hafa spunnist utan á þessa mest marglaga sögu í heiminum. Og við getum alltaf fundið snertifleti við þessa sögu. Lítil varnarlaus börn. Fólk á flótta. Heimilislaust fólk. Ofsótt fólk. Fátækt fólk. Ríkt fólk, Valdafólk. Karlar og konur. Dýrin og náttúran. Allt á þetta fulltrúa sinn í þessari heilögu sögu.
En hvers vegna er hún svona heilög? Ég held að það sé vegna þess að sagan hefur kjarna. Kjarna sem er svo sannur og raunverulegur að ekkert nema goðsögn, marglaga helgisögn getur fangað sannleika hennar. Sannleikann að Guð kemur til okkar. Guð er með okkur. Guð er órjúfanlegur hluti af tilveru okkar. Guð sem fæðist varnarlaus og smár og þarf að reiða sig á umhyggju og góðmennsku annarra frá fyrstu tíð. Guð sem þekkir það að vera á flótta, vera heimilislaus, vera ofsóttur og í lífsháska. Þetta er kjarni sögunnar. Þetta er ástæðan fyrir því að við segjum þessa sögu ár eftir ár. Og þetta er ástæðan fyrir því að við megum ekki hætta að segja þessa sögu. Við megum ekki láta sögurnar um Grýlu og jólasveinana verða einu sögurnar sem börnin okkar fá að heyra, hvort sem það er í skólanum eða úti í samfélaginu. Sögurnar um illskuna og vonskuna í Grýlu og jólasveinunum verða að fá mótvægi og merkingu í sögunni um Jesúbarnið. Sögunni um það hvernig hið góða sigrar ávallt hið illa.
Hvaða sögur segir þú á jólunum? Eða aðra daga ársins? Ertu jólabarn? Eða kannski meira svona jólasveinabarn? Hvaða sögum leyfir þú að stjórna í lífi þínu? Er það Grýla sem kemur og refsar þegar þú hefur verið óþekk eða óþekkur? Kemur inn sektarkennd og vanmáttarkennd? Eða jólasveinarnir sem koma og stela gleðinni þinni og búa til kvíða og angist í hjartanu þínu? Eða leyfir þú Jesúbarninu að dvelja hjá þér? Fulltrúa kærleika og vonar? Tákni lífs og ljóss? Guði sem kemur og er með þér ef þú opnar hjarta þitt. Guði sem gerðist manneskja til að við mættum finna kjarnann í því hvað það er að vera manneskja? Það er sagan þín. Það er sagan okkar allra.
Comments