Guð gefi okkur öllum góðan dag. Við signum okkur. Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda, amen. Vertu Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hfni. Amen.
Ég les úr fyrstu Mósebók.
10 Nú fór Jakob á brott frá Beerseba og hélt áleiðis til Harran. 11 Kom hann á stað nokkurn og var þar um nóttina því að sól var sest. Hann tók stein er þar var og setti undir höfuð sér og lagðist þar til svefns. 12 Og hann dreymdi draum. Honum þótti stigi standa á jörðu og ná til himins og englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum. 13 Þá stóð Drottinn hjá honum og mælti: „Ég er Drottinn, Guð Abrahams, föður þíns, og Guð Ísaks. Það land, sem þú hvílist á, gef ég þér og niðjum þínum. 14 Þeir munu verða fjölmennir sem duft jarðar og breiðast út til vesturs, til austurs, til norðurs og suðurs og allar ættkvíslir jarðarinnar munu blessun hljóta í niðjum þínum. 15 Og sjá, ég er með þér og gæti þín hvar sem þú ferð og mun leiða þig aftur til þessa lands því að ég yfirgef þig ekki fyrr en ég hef komið því til leiðar sem ég hef heitið þér.“ 16 Þá vaknaði Jakob af svefni sínum og mælti: „Sannarlega er Drottinn á þessum stað og ég vissi það ekki.“
Draumur Jakobs er fræg frásögn í Biblíunni og út frá þeirri frásögn hafa orðið til mörg listaverk, enda mjög myndrænn. Himnastiginn er svo sannarlega sterkt draumatákn. Himnarnir ljúkast upp fyrir Jakobi og hann sér engla Guðs. Og Guð gefur honum sterkt fyrirheit um farsæld og gæfu.
Oft dreymir okkur drauma sem tákna hindranir ýmiss konar, og jafnvel lausnir á þeim. Kannski hefur þig dreymt að þú komir að á, og komist ekki yfir hana. Eða lendir á vegg sem stöðvar þig á leið þinni. Þá þarft þú kannski að skoða hvaða hindranir eru í lífi þínu sem koma í veg fyrir farsæld, eða árangur. Það eru til margar frásagnir af því hvernig fólk hefur dreymt lausnir á vandamálum. Margar frægar persónur hafa lýst því hvernig draumur leiddi til lausnar, t.d. hefur Albert Einstein lýst því að afstæðiskenningin hafi að einhverju leyti orðið til í draumi, Elon Musk, hinn frægi uppfinningamaður hefur einnig lýst því, og þekkt er sagan af því hvernig saumavélin varð til vegna draums eins manns. Sú saga verður sögð í fyrramálið.
Biðjum saman Faðir vor:
Biðjum saman bænina sem Jesús kenndi.
Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki.
Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð
Og fyrirgef oss vorar skuldir,
Svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu,
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin,
Að eilífu, amen.

Comments