top of page

Morgunbæn - Jakobsglíman

Writer: arnayrrarnayrr

Guð gefi okkur góðan dag. Biðjum: Nú er ég klædd og komin á ról, Kristur Jesús veri mitt skjól, í guðsóttanum gef þú mér, að ganga í dag svo líki þér. Amen.

Ég les úr fyrstu Mósebók

22 Um nóttina reis Jakob á fætur, tók báðar konur sínar, báðar ambáttir sínar og syni sína ellefu og fór yfir Jabbok á vaðinu. 23 Hann leiddi þau yfir ána og allt sem hann átti hafði hann meðferðis. 24 Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. 25 Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. 26 „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. 27 „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. 28 Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“

Við eigum öll okkar glímur í lífinu. Þær eru miserfiðar og viðfangsefnin, ,,mótherjarnir” ólík. Sum okkar glímum við heilsubrest, önnur við andlega erfiðleika, við glímum við fátækt, sum okkar erum í ofbeldisfullum aðstæðum, og mörg okkar eigum í trúarlegri glímu einhvern tíma á ævinni. Sagan um Jakob er sagan um manneskjuna sem glímir við Guð. En það sem er svo athyglisvert við þessa sögu er að Guð hefur Jakob ekki undir. Guð sigrar ekki Jakob, heldur rennur hann út á tíma, ef svo má segja. Slepptu mér, því að dagur rennur! Segir hann. Það er ekki ólíklegt að Jakob hafi dreymt þennan atburð, og hann er svo sannarlega táknrænn fyrir þá innri glímu sem Jakob á í. En draumurinn sýndi Jakobi fram á hans eigin þrautseigju, þó að hann væri sannarlega særður. Og þegar maðurinn, sem í drauminum stendur fyrir Guð, vildi að Jakob sleppti sér, var hann ekki tilbúinn til þess. ,,ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig” segir hann.

Við erum kannski mörg særð eftir okkar glímu í lífinu. En eins og Jakob, eigum við þrautseigju, og við getum tekið Jakob okkur til fyrirmyndar, og sagt við Guð, ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig! Við getum notið blessunar Guðs, þrátt fyrir mótlæti. Við getum haft sigur, þrátt fyrir hindranir og erfiðleika. Og Guð gefur þér lika nafn sigurvegara, eins og Jakobi.

Biðjum með orðum Eyglóar Eyjólfsdóttur

1. Draumanna höfgi dvín, dagur í austri skín, vekur mig, lífi vefur  mjúka mildings höndin þín. 

2. Dagleiðin erfið er, óvíst hvert stefna ber, leið mig langa vegu mjúka mildings höndin þín. 

3. Sest ég við sólarlag, sátt er við liðinn dag, svæfir mig svefni værum mjúka mildings höndin þín. Amen.

Ég óska þér Guðs blessunar í dag.




Kommentare


bottom of page