Laugardagur 18. Maí
Guð gefi okkur öllum góðan dag. Við signum okkur: Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda, amen.
Ég les úr Daníelsbók.
Konungur sagði við Daníel sem kallaður var Beltsasar: „Getur þú sagt mér hver sá draumur var sem mig dreymdi og hvað hann merkir?“ 27 Daníel svaraði konungi: „Það er ofviða öllum vitringum, særingamönnum, galdramönnum og spásagnamönnum að opinbera konungi leyndardóm þann sem hann spyr um. 28 En á himnum er sá Guð sem opinberar leynda hluti og hann hefur nú boðað þér, Nebúkadnesar konungur, hvað verða muni á hinum síðustu dögum. Þetta er draumurinn og sýnirnar sem komu þér í hug í rekkju þinni: 29 Konungur, þegar þú hvíldir í rekkjunni hvarflaði hugur þinn að því hversu fara mundi á ókomnum tíma. Og hann, sem opinberar leynda hluti, sýndi þér hvað í vændum er. 30 En um mig er það að segja að ekki er það vegna neinnar visku sem mér er gefin fram yfir aðra þá menn sem nú lifa að mér hefur opinberast þessi leyndardómur, heldur skyldi ráðning draumsins gefin þér, konungur, svo að þér yrðu hugsanir hjarta þíns ljósar. 31 Þú horfðir fram fyrir þig, konungur, og við þér blasti risastórt líkneski. Líkneskið var feikistórt og stafaði af því skærum bjarma. Það var ógurlegt ásýndum þar sem það stóð frammi fyrir þér. 32 Höfuð líkneskisins var úr skíragulli, brjóst og armleggir úr silfri en kviður og lendar úr eir, 33 fótleggirnir úr járni en fæturnir að hluta úr járni og að hluta úr leir.
Okkur dreymir oft algjöra vitleysu. Atburðarás er bjöguð, persónur eru ekki eins og í raunveruleikanum, Okkur dreymir kannski Siggu frænku,sem er samt ekki Sigga frænka, og í draumunum getum við gert ýmislegt sem við getum ekki í vöku, eins og flogið.
Draumar eru táknrænir. Það þýðir ekki að þeir séu algjör vitleysa. Oft býr í þeim djúp viska og þekking, því að undirmeðvitund okkar geymir ýmislegt sem við erum ekki meðvituð um, hluti sem við vitum, en vitum ekki að við vitum. Og í draumi birtast okkur tákn sem hafa mjög ákveðna merkingu ef við skoðum þau nánar.
Ef þig dreymir að þú sért staddur, eða stödd í húsi, þá er húsið tákn fyrir þitt eigið líf. Er húsið stórt, reisulegt, vel við haldið? Eða er það hrörlegt, í niðurníðslu? Er það afskekkt eða við stóra götu, t.d. krossgötur? Er dregið fyrir alla glugga, eða eru opnar dyr, er það girt af, eða stendur öllum opið? Allt þetta getur sagt þér eitthvað um lífið þitt, hvernig þú skynjar og skilur sjálfa þig eða sjálfan þig og afstöðu þína til annars fólks.
Biðjum:
Í náðarnafni þínu,
Nú vil ég klæðast Jesús
Vík ég að verki mínu
Vertu hjá mér, Jesús.
Hjarta, hug og sinni
Hef ég til þín, Jesús
Svali sálu minni
Sæta nafnið Jesús
Ég svo yfirvinni
Alla mæðu, Jesús
Bæði úti og inni,
Umfaðmi mig Jesús.
Amen.
Megirðu eiga góðan dag.

Comments