Það var áhugavert viðtal í Fréttablaðinu í gærmorgun við handboltamanninn Björgvin Pál Gústavsson. Við þekkjum hann sennilega flest, síðhærði markmaðurinn sem lokaði stundum mark
inu í handboltaleikjum íslenska landsliðsins, og lagði þannig sitt af mörkum í þeim frábæra árangri sem liðið náði. Hann er að gefa út ævisögu sína, þar sem hann stígur fram og segir frá erfiðum uppvexti og andlegum veikindum sínum. Hann lýsir því hvernig handboltinn bjargaði lífi hans, hann var ódæll og erfiður krakki, aðallega vegna þess að aðstæður hans voru erfiðar, og hann bar gæfu til þess að beina allri orkunni og erfiðu tilfinningunum í þennan góða farveg, og verða afburðaíþróttamaður. Þannig má segja að hann nýtti sér sínar erfiðu aðstæður og erfiðu tilfinningar til að ná frábærum árangri á einhverju einu sviði. En svo kom hrunið, og hann lýsir því á áhrifaríkan hátt. Og hann gerði sér grein fyrir því að hann var ekki þessi villti og brjálaði handboltamaður sem hann hélt að hann væri. Og hann vildi ekki vera með þá grímu lengur, hann vildi fara að rækta sínar mjúku og blíðu hliðar og einbeita sér að þvísem máli skiptir í lífinu. Hann komst nefnilega að því að það sem skiptir máli er ekki það að vera ríkur og frægur, ekki að lyfta bikurum eða vera í sviðsljósinu, það sem skiptir máli er hið góða líf, hversdagslífið með fólkinu sem hann elskar. Og í dag er framtíðarmarkmiðið hans að verða heimavinnandi húsfaðir.
Ég horfði á Ted fyrirlestur um daginn með manni sem heitir Fiann Paul, sem talaði um ,,gjafir sáranna". Hans útgangspunktur var sá að margar af þeim manneskjum sem hafa náð hvað lengst í heiminum í dag, er fólk sem hefur ákveðnar ,,persónuleikaraskanir" eða persónueinkenni, sem spretta í rauninni upp úr ,,sjúklegu" ástandi. Hann lýsir því þannig að fólk verður fyrir áföllum í uppvextinum, það ber með sér ýmis sár, sem móta persónuleika fólks, og oft verða þessi áföll og sár til þess að fólk þróar með sér andlega sjúkdóma. En stundum verða einmitt þessi sár til þess að fólk þróar með sér persónueinkenni sem eru nauðsynleg til að ná afburða árangri. Þetta er fólkið sem getur einbeitt sér af alefli að einhverju einu verkefni og kannski útilokað allt annað, þ.m.t. heilbrigð samskipti við annað fólk, og heilbrigð samskipti við sig sjálft. Saga Björgvins Páls finnst mér einmitt saga manns sem hefur náð að nýta sér ,,gjafir sáranna" til að ná frábærum árangri, en kemst svo að því að á endanum hittir maður alltaf sjálfan sig fyrir. Hann vitnar í Jim Carrey, leikara, sem sagði að hann óskaði þess að allar manneskjur fengju einhvern tíma að upplifa það að vera ríkar og frægar, því að þá myndu þær kynnast tómarúminu innan í sér.
Páll postuli þekkti þetta. Hann var maður sem hafði náð frábærum árangri í lífinu, að því er honum fannst, hann var voldugur og áhrifamikill, og beindi kröftum sínum aðallega að því að ofsækja kristið fólk, þangað til hann varð fyrir vitrun á veginum til borgarinnar Damaskus, og eftir það varð hann öflugasti kristniboði sem heimurinn hefur átt, ferðaðist um löndin í kringum Miðjarðarhaf og stofnaði söfnuði. Hann varð sjálfur fyrir ofsóknum og dó að lokum píslarvættisdauða árið 64 eftir Krist. Bréf hans til safnaðarins í Filippí, sem var borg í Makedóníu, var skrifað þegar hann sat í fangelsi, en bréfið er oft kallað bréf gleðinnar, því að Páll virðist ótrúlega sáttur við hlutskipti sitt og örlög, og vill deila reynslu sinni með öðrum. Og Páll talar um að hann hafi reynt ýmislegt. Hann hafi bæði upplifað að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir oglíða skort. Og hann hefur komist að því í gegnum þá reynslu, að það sem skiptir öllu máli, er samband hans við Guð, trúin á Jesú Krist. Þangað sækir hann styrk sinn, og hann veit að hann þarf jafn mikið á Guði að halda, hvort sem hann er ríkur eða fátækur, hungraður eða saddur. Allt megna ég fyrir hann sem mig styrkan gjörir, segir hann. Það er það sem skiptir alltaf mestu máli.
Það sem mér finnst við geta tekið með okkur úr þessum hugleiðingum er þetta: Hið góða líf felst ekki í því að verða rík og fræg. Að ná frábærum árangri. Að skara framúr, að bera af. Ég held að það sé ekki síst mikilvægt fyrir ykkur sem yngri eruð að skilja þetta, því að á ykkar aldri er það draumur mjög margra að verða rík og fræg. Atvinnumenn í fótbolta. Rokkstjörnur. Frægar leikkonur eða fyrirsætur. Ríkt bisness fólk. Þegar við sjáum framtíðina fyrir okkur held ég að oftar en ekki sjáum við okkur meira eins og Kardashian klanið heldur en fólkið í kringum okkur.
En við skulum ekki gleyma því, að slíkur árangur er oft dýrkeyptur, hann er oft afleiðing af djúpum sárum á sálinni, eins og Björgvin Páll lýsir svo vel, og á endanum er það ekki árangurinn sem gefur okkur það sem sálin þarfnast. Hið góða líf er á endanum að lifa í sátt við okkur sjálf, fjölskyduna okkar, umhverfið okkar, og ekki síst í sátt og samfélagi við Guð. Og það er þangað sem við getum sótt styrkinn til að lifa hinu góða lífi. Það er Guð sem getur læknað sárin okkar.
Jesús læknaði blinda manninn í guðspjallinu. Augu hans opnuðust og líf hans breyttist. Ég bið þess að augu okkar megi líka opnast fyrir gleðinni sem er að finna í því að vera venjuleg manneskja. Og ég bið þess að eins og Páll postuli, megum við sækja styrk til Jesú, og nota hann okkur sjálfum og öðrum til góðs.
Comments