
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað varð af sonunum tveimur í dæmisögunni sem var lesin hér áðan.
Sagan endar svo sannarlega vel fyrir yngri bróðurinn, pabbi minnist ekkert á öll auðævin sem hann er búinn að eyða og sóa, og allar áhyggjurnar sem sonurinn hefur valdið honum, en heldur dýrlega veislu til að fagna heimkomunni.
Ég veit ekki alveg hvernig hún endar fyrir eldri bróðurinn. Snýst reiði hans bara um það að pabbi er ósanngjarn í þetta eina skipti? Eða er þetta kannski mynstur sem hann þekkir allt of vel? Litli bróðir sem kemst alltaf upp með allt, fær allt sem hann vill, og er aldrei látinn taka ábyrgð á sjálfum sér? Og getur verið að hann, stóri bróðir sem er alltaf svo duglegur, megi bara slátra alikálfinum með vinum sínum þegar hann langar til að gera sér glaðan dag, en hann hafi bara aldrei haft hugmyndaflug til þess?
Margar Biblíusögur, sérstaklega í Gamla testamentinu, fjalla um erfið samskipti í fjölskyldum. Ríg milli systkina, foreldra sem gera upp á milli barna sinna, og harmleikina sem það getur valdið í lífi fólks.
Það er auðvelt fyrir okkur að spegla okkur í þessum sögum. Við þekkjum flest einhverjar útgáfur af þeim, einhvern sem er uppáhalds, einhvern sem hefur aldrei þurft að taka ábyrgð, eða einhver sem þjást af afbrýðisemi og finnst að aðrir fái alltaf meira en þau. Og við vitum að það getur valdið miklum sársauka og deilum.
En við vitum það líka, og það á sérstaklega við þegar við eldumst, að það er aldrei hægt að hafa allt jafnt. Við sem eigum börn vitum að þau hafa mismunandi þarfir. Þau eru misfær um að taka ábyrgð og bjarga sér. Og við gerumst líka oft sek um að halda meira upp á eitt barn en annað, þó við reynum að sjálfsögðu láta það ekki stjórna okkur í uppeldi á börnunum okkar.
Og við vitum það líka að við myndum gera allt fyrir börnin okkar, og ef þau hverfa frá okkur, þá erum við ekki í rónni fyrr en þau koma aftur. Alveg sama hvað þau hafa gert, alveg sama þótt þau komi slypp og snauð, rifin og skítug, grindhoruð og hungruð, þá held ég að við myndum gera eins og faðirinn í sögunni, og fagna og gleðjast.
En hvað ætli hafi svo gerst næsta dag? Ég er viss um að faðirinn hefur hugsað: Nú er allt gott, sonur minn er kominn heim aftur. Hann hefur örugglega lært af reynslunni og er tilbúinn að leggja sitt af mörkum í fjölskyldunni. En ég er líka viss um að eldri bróðirinn hefur hugsað: Jæja, þá byrjar ballið aftur, hvað ætli það taki hann langan tíma í þetta sinn að eyðileggja allt...
Og hvað ætli yngri bróðirinn hafi hugsað: Æi, það er nú alltaf best að vera heima, í örygginu. Best að njóta lífsins og láta dekra aðeins við mig...
Við getum öll speglað okkur í þessari sögu, og við getum leikið okkur að því að hugsa: Í hvaða hlutverki er ég í sögunni? Eða er ég kannski til hliðar við söguna? Er ég kannski mamman, sem hvergi er minnst á? Eða elsta systirin sem var gefin í hjónaband kornung og þurfti að yfirgefa fjölskylduna? Og við getum velt fyrir okkur, myndi ég gera eitthvað öðruvísi ef ég væri annar sonurinn? Eða faðirinn?
Við speglum reyndar fleira í þessari sögu en okkur sjálf, því þetta er ein þekktasta dæmisagan um náð Guðs. Þarna er dregin upp mynd af Guði sem kærleiksríkum föður, sem er tilbúinn að taka við þeim sem villast að heiman. Guði sem er tilbúinn að fyrirgefa og breiða út faðminn, bjóða okkur velkomin heim.
Og þarna er birt mynd af tveimur manneskjum sitt hvoru megin á skalanum. Annars vegar manneskja sem er full af breyskleika, meingölluð, og jafnvel óforbetranleg, alla vega í augum eldri bróðurinns. Hins vegar manneskja sem ætlast til að lífið sé sanngjarnt og fari eftir settum reglum, og að umbunin sé aðeins fyrir þau sem breyta rétt. Manneskja sem dæmir aðra eftir sínum eigin mælikvarða, en sér ekki ástina sem faðirinn - og móðirin - á til allra barnanna sinna.
Við getum velt fyrir okkur:
Hvað ætli bræðurnir í sögunni hafi lært? Hvað með yngri soninn?
Ætli hann hafi lært það að það borgi sig aldrei að fara að heiman, heldur vera bara heima í örygginu, í dekrinu í faðmi ríka föðurins? Vonandi hefur hann lært eitthvað annað en það, lært af mistökunum, lært að taka ábyrgð og stíga inn í líf fjölskyldunnar sem hann elskar sem fullveðja manneskja.
Og hvað ætli eldri sonurinn hafi lært?
Vonandi hefur hann lært hversu mikils virði hann er föður sínum. Og vonandi hefur hann lært að biðja pabba sinn um allt sem hann þarfnast, láta sér ekki bara nægja það allra nauðsynlegasta, heldur allt sem þarf til að gleðjast með vinum sínum og vinkonum.
Og þá er kannski komið að því mikilvægasta: Hvað getum við lært af þessari sögu? Sjáum við einhvern nýjan flöt á henni í dag? Flöt sem við höfum kannski aldrei séð áður? Getum við kannski reynt að hugsa sem svo:
Hvenær erum við eins og yngri bróðirinn? Er það kannski þegar við sólundum meira en við eigum, göngum á auðlindir og auðævin allt í kring, þangað til við komumst í þrot? Eða er það þegar við skeytum ekki um þau sem eru í kringum okkur, heldur hugsum bara um okkur sjálf og að hafa það sem best. Og hvenær erum við eins og eldri bróðirinn? Er það þegar við erum full sjálfsréttlætingar, bendum á flísina í auga náungans en sjáum ekki bjálkann í okkar eigin auga. Þegar við kunnum ekki að gleðjast með öðrum vegna öfundar. Eða þegar við höfum ekki hugmyndaflug til að njóta alls þess sem lífið býður okkur, af því að við höldum að við megum það ekki?
Kannski voru báðir synirnir breyttir menn daginn eftir að þessi frásögn gerist. Því að sagan um synina tvo er saga um ást. Hún er saga um kærleika sem gerir ekki upp á milli, gerir ekki kröfur um frammistöðu eða fórnir, kærleika sem er opinn faðmur fyrir hvaða manneskju sem er, í hvaða ástandi sem er, hvar sem er og hvenær sem er. Kærleika sem er umbreytandi og lífgefandi. Þetta er sagan um það hversu mikils virði þú ert Guði. Og ég. Og við getum byrjað hvern dag í trausti þess að Guð mætir okkur með opinn faðminn og gefur okkur það sem við þurfum.
Lúkasarguðspjall 15:11-32
Enn sagði Jesús: „Maður nokkur átti tvo sonu. 12 Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. 13 Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. 14 En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. 15 Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína 16 og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum.
17 En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! 18 Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. 19 Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.
20 Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. 21 En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. 22 Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. 23 Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. 24 Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag.
25 En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. 26 Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. 27 Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim.
28 Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. 29 En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. 30 En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. 31 Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. 32 En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“
Comments